Ég er 28 ára tveggja barna faðir sem elskar hreyfingu. Ég á konu og saman eigum við hundinn Storm.
Í gegnum árin hef ég alltaf verið að æfa, stundum mikið og stundum lítið en alltaf eitthvað. Ég hef prófað hitt og þetta, þar á meðal Muay Thai sem ég stundaði í rúmlega ár en lyftingarnar kölluðu alltaf á mig, það er eitthvað við það að vera alltaf massaðasti gæjinn á svæðinu.
Seinustu 3 ár hef ég verið að æfa crossfit, en seinasta árið hef ég verið að lyfta samhliða crossfitinu ásamt því að taka mataræðinu alvarlega. Ég elska crossfit en mér finnst ekki nóg að mæta bara og sprikla, mér finnst mikilvægt að vera sterkur. Á sumrin stunda ég fjallahjól og á veturnar er ég á snjóbretti, skemmtilegustu utanlandsferðirnar sem ég fer í tengist þessum áhugamálum.


Á yngri árum æfði ég íshokkí og þegar ég hætti í því byrjaði ég að hjóla mikið á BMX hjóli.
Hjólinu var svo stolið þegar ég var 16 ára en þá fann ég mér nýtt áhugamál, lyftingar. Ég hef verið að lyfta frá því að ég var 16 ára. Ég byrjaði ungur að lyfta þungt og hef alltaf verið sterkur, 22 ára var ég að taka 200 kg í bekkpressu.
Að lyfta, hreyfa sig og borða rétt finnst mér eitthvað sem allir ættu að gera. Hvort sem það er til að bæta útlit eða til þess að bæta heilsu.
Að hugsa um sjálfan sig eykur lífsgæði.
Í gegnum tíðina hef ég unnið allskonar störf, undanfarin 2 ár hef ég verið að smíða þar til nýlega þegar ég fékk ógeð og hætti á staðnum.
Ég fann hvað ég elskaði og skapaði mér atvinnu út frá því – að þjálfa fólk og hjálpa því.
Ég elska það sem ég geri, ég vildi að allir myndu upplifa hvern dag eins og ég.